fimmtudagur, janúar 19, 2006Eitt próf búið og 3 eftir...

Við Tamara villtumst svo inn í Gap eftir prófið og þar fann ég toppinn sem mig langaði svo mikið í fyrir jól nema hann var á 70% afslætti! Ég stóðst ekki mátið enda engin ástæða til. Er den ikke smúk!

Þetta er ein margra gulróta sem teyma mig áfram í þessum próflestri. Þangað til klæðist ég fáu öðru en föðurlandinu mínu frá toppi til táar og hakka mig í gegnum námsefnið eins og göltur.

Þessi hugleiðing um gelti fær mig til að hugsa um hana Millý mína að borða gras í garði nágrannans á sumrin. Æ, það er svo fögur og fyndin sjón...*dreym*

miðvikudagur, janúar 18, 2006


...amicus, amici, amico og rosa, rosae, rosae : það fyrsta sem ég læri í latneskri sagnabeygingu til að geta lesið í það hvaða rómverji var að gera grafmerki handa hverjum. Marcus á Marci eða Publius á Publii...(held ég) Það hefði nú gagnast mér betur að læra latínu en að diffra í MR. Svei þessu bara.

Fyrsta prófið á morgun. Er í sannkallaðri prófmyglustemmningu, inni allan daginn. Mestu hátíðisstundirnar eru þegar það er matartími, tími í stuttan göngutúr eða háttatími.

Í dag eru 9 dagar í frelsun.

laugardagur, janúar 14, 2006

Jæja, þá hef ég loksins gerst svo fræg að fá mér svona FOTKI-myndasíðu. Þar getur að líta ýmsar myndir héðan frá París. Ég á reyndar alveg ömurlega lélega digital myndavél sem ég er eiginlega hætt að nota. Er farin að taka á einnota myndavélar aftur. En með aðstoð annarra (sem eiga góða vél & vilja leyfa mér að fá copy) er aldrei að vita nema ég geti sett inn fleiri myndir einvhertíma á næstu misserum.

smellið HÉR og sjáið dýrðina! :)

Fór á Louvre í gærkvöldi og skoðaði rómverskar fornmynjar af áhuga með Tamöru. Föstudagskvöldin eru afar hressileg á Louvre því þá er frítt inn fyrir fólk yngra en 25 og því er þetta svona youngy stemmning.

Annars : Próflestur.fr

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Það er nauðsynlegt að einblína á það jákvæða í lífinu. Sérstaklega þegar maður er að geispa golunni yfir þessu rómverska rusli (ritgerð dauðans). Með ýmsum brögðum (með því að nota leturstærð 12,5m með því að taka með atriði inn á milli sem væri alveg hægt að sleppa en er líka alveg hægt að sleppa ekki og svo að sjálfsögðu með því að hafa eina auða línu á milli allra efnisgreina) er mér samt að takast að hakka inn 6 blaðsíður. Hægt og bítandi...

Allavega. Jákvæðir þættir í lífinu sem ég hef upplifað (eða hvernig sem maður gæti orðað það) undanfarna daga :

1. Kaffið í sjálfsalanum í skólanum hefur verið lækkað úr 70 centímum í 60 centím.Húrra! Það bragðast samt jafn illa og fyrir jól.

2. LÍN ætlar að hækka útgreiðsluna til stúdenta smá. Ég mun því ekki svelta á 95% lánum í vor.

3. Ég náði einum kúrsi í gær. Áður en ég náði honum samt hélt ég að ég væri fallin og ég grét smá eftir rökræður við kennarann minn um gæði verkefnis sem ég hafði skilað. Ég tapaði þeim rökræðum en féll samt ekki. Og það var ekki af því að ég vældi það út að ná heldur var þetta misskilningur.

4. Eftir að hafa umgengist mikið Þjóðverja undanfarin misseri hef ég lært að ég man enn þá margt af því sem ég lærði í þýsku í 10.bekk. Áhugavert? Jákvætt? Maður spyr sig...

Ég man svo ekkert meira í bili. Þegar það eru próf er heilinn í niðursoðnu ástandi og óvirkur að mörgu leyti. Það rignir líka mikið núna en samt ætla ég að tölta útí búð núna með rauðu innkaupakerru heimilisins að kaupa brauð til að rista og mjólk út á morgunkornið.

föstudagur, janúar 06, 2006


Ó, lúlli minn á himnum! Það er rugl að vera í prófum í janúar, einfaldlega á móti lógík heimsins og líkamans. Svei, ég hef einbeitingu á við maur. Og ég hefði átt að skilja Simsið eftir heima, er alltaf að stelast í það smá. Svei, svei, svei!

Ég er annars farin að læra á bókasafninu sem er virkilega þægjó. Ég þori ekki að fara í Sims þar. Það er reyndar merkilegur prósess að fá lánaðar sumar bækur á bókasafninu (ekki heim heldur bara í salinn). Ég veit ekki hvað ég er búin að skrifa nafn og heimilisfang oft (tvisvar á hvern miða, allt handgert auðvitað og á pappírseyðublöðum) til að fá þessa blessuðu bók sem ég er að skrifa um lánaða. Myndin hérna er einmitt af einni týpunni af þessum hlutum sem ég er að skrifa um sem fjallað er um í bókinni, intaglio og cameo.

Ójá. Prófdagarnir eru svo líka að skýrast hægt og hægt. Las það einmitt í Mogganum að háskólanemar heima væru að kvarta yfir því að fá ekki að vita prófdagana nema með tveggja mánaða fyrirvara. Hér fær maður að vita það í síðustu kennsluviku. Við erum mjög tæknileg og vel skipulögð heima á Íslís þykir mér. Guðdómlegt og skilvirkt skipulag með tölvukosti og öllu. Nammi namm!

Ég fer einmitt í próf í latneskum grafskriftum þann 19.janúar en ég hef ekki mætt í einn einasta tíma þar sem hann er á sama tíma og annar mikilvægari tími og í hinum enda bæjarins í þokkabót. Svo virðist mér sem ég eigi að vera í tveimur prófum á sama tíma þarna einn daginn...þarf að athuga það mál hjá einhverjum yfirvöldum. Franskt skipulag er hreint dásamlegt.

miðvikudagur, janúar 04, 2006


Það er virkilega fallegt veður hér í París, bjart og stillt. Það er líka bjart til kl.18 að verða. Frakkland bauð okkur Rósu velkomnar í gær með löngum biðröðum og veseni. Það fær minna á mann núna, komin í æfingu eða eitthvað.

Framundan er lífsróður ; lærdómur á lærdóm ofan til að komast af. Ég ætla að koma meðvitund minni á ástand skyndauða hið fyrsta. Vakna svo upp til lífsins þann 27.janúar eins og Þyrnirós og Mjallhvít. Daginn eftir ætla ég með flugvél til Flórens. Já, ég gleymdi víst að minnast á það að ég er að fara til Firenze í 4 nætur eftir prófin. Guð, hvað ég hlakka til...

mánudagur, janúar 02, 2006

Gleðilegt nýtt ár. Vona að 2006 verði jafn frábært og 2005.

Annars er ég að fara heim í fyrramálið. Bless í bili Ísland, sjáumst í júlí.