miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Myndasíða Tótu

Mér finnst svo leiðinlegt að kvarta að ég tók út leiðinlega bloggið þar sem ég rakti hörmungar hversdagslífsins og kallaði Frakka öllum ilum nöfnum. Það skiptast vissulega á skin og skúrir en þetta er ekki svo grafið eftir allt saman (að eitthvað sé grafið er íslenskun á hinu mjög svo vinsæla franska orðatiltæki "c´est pas grave". Annað jafn vinsælt orðatiltæki hérna er "c´est pas mal", þýðir "ekki slæmt", og inniheldur líka tvöfalda neitun að hætti hins ískalda parísarbúa og er það oftast notað til að hrósa einhverju/m án þess þó að hrósa...merkilegt fyrirbæri). Þetta reddast.

Allavega. Það er komin einhvers konar vísir að myndasíðu hérna. Þið smellið á "Hér eru nokkrar myndir"-linkinn hér til vinstri og þá lendið þið á myndasíðunni góðu. Þetta er ekki mikið en vonandi næ ég að setja meira inn bráðum.

sunnudagur, nóvember 27, 2005

Einmanna Jim


Ég fer orðið í bíó einu sinni í viku núna. Í gær ætlaði ég að fara að sjá Last Temptation of Christ á Scorsese hátíðinni í Pompidou en kl.7 fann ég að það var ekki að fara að gerast, ég vildi frekar eitthvað aðeins léttara í magann og hausinn. Fór því á Lonesome Jim í bíói við hliðina á Pomipdou í staðinn. Myndin hitti mig í mark. Casey Affleck er nú meiri snilldin. Eins og auðvitað Steve Bouscemi sem leikstýrir og Liv Tyler sem leikur með C.A. Mér finnst líka alltaf gaman að sjá bandarískan dreifbýlis hversdagsleik. Minnir mann eiginlega á Ísland stundum.

Það er hætt að snjóa. Hallelúja.

föstudagur, nóvember 25, 2005

Snjór
Ég brá mér sem snöggvast inní eina búð á leiðinni heim úr skólanum áðan og þegar ég kom út var byrjað að snjóa. Snjóa! Og það var búið að lofa mér að það snjóaði ekki í París. Hvað er að gerast? Fólkið í hverfinu spurði sig að hinu sama af svip þeirra að dæma. Allir voru hissa og brostu til hinna og gerðu svipi útaf þessu undarlega ástandi. Nú hefur snjókoman breyst í rigningu og það er ekki betra svo sem. Þið fyrirgefið, en ég er ekki haldin þeim undarlega sjúkdómi að elska snjó,eins og sumir sem ég þekki gera reyndar :-) Mér finnst allt svona vetrarveður hefta mig, neyða mig til að vera inni meira og flýta mér þegar ég er úti. En það er kannski bara einhver annar sjúkdómur, je ne sais pas.

En burt séð frá veðurfari þá er ég hress. Þjáist reyndar af krónískum kvíða því einhverjir erasmusar voru að segja mér þær fréttir að við ættum etv. að taka próf í janúar. Það kveður þvert á það sem allir kóordinatörar segja mér um að við eigum helst ekki að taka próf. Ég veit ekki hverju skal trúa og ætla að afla mér heimilda um málið á mánudaginn. Er það líf eða dauði í janúar? Fylgist með í næsta þætti af "Tóta í gini hins parisíska Sorbonne"... [lokastef/outro]

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Soirée poésie islandaise


Gærkvöldið varð mun áhugaverðara en búist var við en við Rósa og Ása hlustuðum á franskt fólk flytja ljóð eftir Sigurð Pálsson í kjallara lítils leikhúss í hliðargötu af Rivoli. Skáldið sjálft var einnig viðstatt, las upp ljóð á frönsku og íslensku og svaraði (mis gáfulegum) spurningum. Áhugavert fyrir ýmsar sakir, þá ekki síst vegna fjölbreyttrar (og mis heilbrigðrar) mannflórunnar á staðnum, sem við blönduðum geði við, töluðum við og sungum fyrir, drukkum rauðvín og jöpluðum á undarlegu sætabrauði með. Sendiherrann Tómas var einnig viðstaddur og hans spúsa. Þau virtust hress þó svo við höfum ekki fengið neina staðfestingu á því. En Monsieur Pálsson er alveg að slá í gegn, ef hann er ekki bara þegar búinn að því. Gaman að fylgjast með skáldi sem manni er kunnugt svona á heimsvettvangi (í þessu tilfelli á þessari mögnuðu samkomu í fornum steinhlöðnum kjallara) og spá aðeins í próblemin sem fylgja því að þýða ljóð af einu tungumáli yfir á annað (sem getur skv. því sem kom fram í gær verið ómögulegt). Já, Ísland leynist víðar.

Annars er ég með kvíðahnút í maganum því í kvöld mun Frú Marskálkur, TD kennarinn minn í Litt.,Idées, Arts, henda leiðréttri synthésu í hausinn á mér...

mánudagur, nóvember 21, 2005

Húsþökin í Paríslaugardagur, nóvember 19, 2005

Megum við nota glugann yðar?Laugardagskvöld og ég er heima bara að hafa það gott. Fór í partý í gær og út að borða svo ég er róleg núna. Fór í ED og keypti mér rauðvín, mjólk og gos á aðeins 2€! Keypti mér Bordaeux rouge sem ég er að hita yfir kerti. Það vill ekki hitna hérna inni hjá mér því það er svo kalt. Kuldaboli er kominn til Parísar í öllu sínu veldi og ég er að þrjóskast við að kveikja á kyndingunni. Ég veit ekki hvað ég held það út mikið lengur að vera svona þýsk í hugsunarhætti...

En já, þeir eru hressir slökkviliðsmennirnir, les pompiers, í þessari borg. Við Ása erum núna með númerið hjá fjórum þeirra sem við eigum að hringja í ef okkur langar að drekka smá kaffi og spjalla. Þeir fengu nefnilega að nota gluggann heima hjá Ásu til að hleypa Jóhanni inn, sænska stráknum sem býr á hæðinni fyrir neðan hana, því hann læsti sig úti akkúrat þegar hann var að sjóða sér pasta. Sem sagt eldhætta og ástæða til að kalla á slökkviliðið. Það heyrðist mikið tramp og svo bank á hurðina í risinu og er ég opnaði komu inn 4 slökkviliðskallar með gullhjálma. Einn þeirra var látinn síga niður á neðri hæðina og komst þar inn um gluggann hjá Jóhanni, sem var frekar miður sín yfir þessu öllu saman. Hann var samt nógu hress til að halda partý seinna um kvöldið og bauð okkur að koma. en pompiarnir skildu eftir miða á tröppunum fyrir framan hurðina hjá Ásu með símanúmeri og fallegri kveðju. Við ætlum að ramma blaðið inn. Kannski væri ráð að setja svona lítinn hamar í bandi við þ.a. maður geti brotið glerið og náð í blaðið og hringt í þá verði maður mjög einmanna? (svona eins og maður brýtur glerið og ýtir á rauða hnappinn þegar það er eldsvoði) ;DÍ dag fórum við Ása og Clement að skoða allan fallega matinn í La Grande Epicerie de Paris. Þökk sé Clement fékk ég sérþjónustu við að velja góða rauðvínsflösku til að fara með heim í jólamatinn. Við sáum líka vínflöskur sem kostuðu 2500 €. Þær voru geymdar í læstum skápum. Við smökkuðum svo alls kyns paté og lax og brioche og fleira sem á að kosta fullt af evrum kílóið og bragðaðist himneskt. Svo labbaði ég alla leið heim í kuldanum (gleymdi metrómiðanum mínum heima) og borðaði ristað brauð í kvöldmat. Æ, nennti ekki að elda í kvöld. Ætla hins vegar að gera sunnudagssteik annað kvöld, gera önd úr dós í ofninum með grænmeti. Jummí.

Svo fann ég boðsmiða á nýju Harry Potter myndina í metróinu í gær. Einhver geðveik manneskja hefur hent þessum ómetanlega miða frá sér. Eins manns dauði er annars brauð - eða Harry Potter í þessu tilviki. Guð hvað ég hlakka til.

þriðjudagur, nóvember 15, 2005

FiðrildabrúðurinEinn af þessum megadögum að baki. Fór í tíma snemma, ryksugaði heima, kláraði að gera ritgerð, fór í ofurvinnutíma, skilaði ritgerðinni og fór í bíó til að loka þessu. Við erum farnar að fara beint á Odéon torgið nokkrir rassanemar að fá okkur smá bon-bon í poka eftir TD tímana á þrid.kvöldum og ákváðum að fara í bíóið þar líka núna. Sáum Corpses Bride. Ágæt mynd. Flottir karakterar-sérstakelega hinn bjöllulegi pabbi Victoriu! - en svolítil formúla og ég skildi ekki hvað það átti að þýða þetta með fiðrildin í lokin...Einum of einföld lausn að leysast bara upp í fiðrildi! En þetta er auðvitað barnamynd. Það voru samt nokkrir frekar rauðeygðir þegar ljósin kviknuðu. Það er etv. góð og gild ástæða fyrir fiðrlida trukkinu.

En þessi mynd hérna er sem sagt næsta ritgerðarverkefni. Pietá eftir Bouguereau. En það er í desember svo ég ætla að slaka á aðeins núna, hvíla mig á ritgerðum í svona viku til tvær. Ætla að skella mér á Louvre annað kvöld og svo fer ég á Orsay með TD hópnum í Art Contemporain á fimmtudagskvöldið. Svo er að byrja Scorsese kvikmyndahátíð í Pompidou og hann á víst að vera viðstaddur á fyrstu sýningunni. Ég fer að sjá eitthvað af því geimi. Býst nú ekki við að sjá kallinn. Harry Potter var í París í síðustu viku og ég sá ekkert í hann. Frekar mikil vonbrigði það.

Listó listó sem sagt. Held ég sötri bollasúðuna mína núna og detti í svefn fljótlega...

laugardagur, nóvember 12, 2005

Nýjasta myndasíðan!!!

Ég vil benda á að Rósa, tvíbakan mín og meðleigjandi, hefur opnað myndasíðu þar sem getur að líta fagrar myndir frá París :

Rósu-myndir

Hún er nú opinberlega komin í linkalistann minn.

Þess má einnig geta að ég er að vinna í minni eigin myndasíðu, Tótumyndum, en sú síða mun bráðum vera frumsýnd (ef svo má segja)...

Hátíðleiki á laugardagsmorgni er ágætur. Það er annars vetur hérna núna, fór út í morgun og það var skítkalt, mikill rakakuldi...brrrr...

Samt betra en íslenskur haglél-í-framan-og-snjór-upp-að-hné-vetur. Finnst mér amk.

Jógað byrjar í dag. Afar spennandi, veit ekkert hvað ég er að fara útí.

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Franskt grín með sósu

Þessi dagur er farinn í rugl. Reyndar er ég að stytta nýju buxurnar mínar sem hefur verið á TODO-listanum lengi. Þetta eru ekki Stellu McCartney buxur. Ég nennti ekki í H&M að hamstra Stellur í morgun. Kom þarna við á leiðinni heim í hádeginu og þá voru þrjár flíkur í XL flagsandi á fatastöndunum...allt búið og búðin í rústi. Keypti mér bómullarbuxur á túkall til að fara í í jógað á laud.

Dagurinn hófst reyndar á dæmigerðu frönsku rugli, kryddað all hressilega með tilgangslausum og ósveigjanlegum frönskum búrókrasískum reglum. Á mánudaginn hef ég sem sagt nám í tveimur nýjum kúrsum og hætti í einum kúrsi. Ég má ekki vera í frönskum bókmenntum því ég á að heita listfræðinemi. Var sagt að hunskast í rómverska list frá fornöld og eitthvað sull með því eða bara skrá mig í franskar bókmenntir vildi oss það frekar! Ég hlýddi en lét í leiðinni falla eina afar yfirvegaða setningu um hversu leyndur fasismi þetta væri nú allt saman. Erasmus kóordinatörinn sem ég var að tala við játti þessu en sagiðst ekki búa til reglurnar, hans hlutverk væri bara að segja mér (heimska útlendings erasmus bjánanum) hvernig reglurnar væru og að það væri alls enginn séns í helvíti að breyta þessu. Svo brosti hann með fuglshausnum sínum og spurði hvort það væri nokkuð fleira fyrir oss. Nei, þakka yður fyrir, aurevoir - not! Hann er samt ágætur greyið.

Þannig var það grínið nú. Gaman að byrja í nýrri stundatöflu á miðri önn. Franskt grín með sósu.

Hvað er svo málið með þetta skype? Það eru alltaf einhverjir arabar að reyna að tala við mig. Alltaf einhverjir Abdji og Nabhi calling. Hef ekki undan við að blokka þetta.

En nú er það buxnastytting með Nouvelle Vague (last summer nostalgía 100% !!!) í botni.

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Leikur að læra - á franskan máta
Ég hef opinberlega skilað mínu fyrsta verkefni í Sorbonne. Skilaði synthésunni í gær. Hún var reyndar nokkrum orðum of löng en ég held það sleppi. Ég handskrifaði hana með "plume" (sjálfblekungi, eins og ALLIR skrifa með hérna - það er totally halló að nota blýant og að skrifa á línustrikuð blöð, eins og ég nota alltaf, gamli útlendingurinn). Ég skrifaði þetta upp samviskusamlega á rúðustrikað folio eins og tíðkast líka. Æ, þessir Frakkar eru svo klikkaðir og skrýtnir og óþolandi stundum. En þetta var heilmikil stemmning bara að gera þetta svona.
Svo varð mér ljóst í tímanum hvað þetta er advanced kúrs sem ég er í og mikil bókmenntafræði sem er ekki alveg mitt svið. Kennarinn er frekar ung kona, gífurlega hress, og gífurlega klár. Jiminn. Alveg bullandi kraumandi fróðleikurinn. H'un er smjög skemmtileg.Í gær lásum við einhvern texta sem var á ofur-frönsku (hinir Frakkarnir skildu hann ekki einu sinni) um franskan rithöfund og hennar einstaka stíl. Ég fylgdist með og glósaði en ég á ekki að skila verkefni tengt þessu eins og hinir (gott að vera Erasmus stundum, annars væri ég farin á taugum hérna), sem er úrdráttur úr þessum texta. Það fór að sjálfsögðu góður tími í að útskýra nákvæmlega það sérstaka form sem úrdráttur væri. Þessir Frakkar, ég segi það enn og aftur, eru með strúktúr á heilanum. Skiptir ekki hvað þú segir heldur að þú setjir það rétt upp. Klikkhausar.

Allavega. En núna er ég loksins að gera það sem ég elska, greina málverk. Það er "Marat assassiné", verkið sem myndina hérna er af. Áhugavert.
Það er sem sagt önnur lærdómsvika farmundan að gera ritgerð...svo er kominn tími á að gera eitthvað fönní eftir það.

Nú er rakakuldinn mikli kominn í bæ, afar kalt og ég sef í föðurlandinu mínu, sem virkar og er afar gott. Meira seinna, ciao.

sunnudagur, nóvember 06, 2005

Mooviestar, mooviestar...


Ég er alveg búin að fá upp fyrir haus af helvítis fólkinu sem býr hérna fyrir ofan okkur! Þau spila helvítis tónlist á hæsta frá því kl.9 á morgnana til 11 á kvöldin, mjög hátt, þannig að maður heyrir endalaust svona bassaóminn í gegnum loftið. Er ég brjáluð eða hvað. Ég ætla að tala við húsvörðinn um þetta asap. Ef það virkar ekki mæti ég enn brjálaðri þangað upp og bið þau að gjöra svo vel að lækka! Þvílíkt pakk.

Allavega. Hvað sem hávaðamengun líður þá er sunnudagur og ég er heima að læra. Var reyndar að koma heim úr smá "action", í bókstaflegri merkningu. Var að fara með mitt fyrsta kvikmyndahlutverk. Ég leik sem sagt dána/lifandi/sofandi manneskju í stuttmynd eftir stelpu sem heitir Paula, spænska stelpu sem er líka Erasmus-nemi. Ég var smurð með gerviblóði með myndtubragði í andlitið og svo mjakaðist það út um allt, m.a. í hárið, á meðan leiknums stóð. Ég átti ýmist að liggja eða sitja á ganginum í húsinu hennar (aðrir íbúar hússins sem voru að fara inn og út virtust ekki láta sér bregða við að sjá mig blóði drifna þarna) og gera einhver truc, vera dáin, svo tjá það að ég væri lifandi en etv.sofandi. Ég fæ copy af myndinni þegar hún er tilbúin og ef ég get fundið út úr því hvernig mun ég setja hana hérna á síðuna. Þetta var annars mjög gaman. Spennandi að sjá útkomuna.

Annars er þessi blasted synthése að gera mig geðsjúka. Hún á að vera 550-650 orð en ég er enn í 1000 orðum! *Gna* Bon, on verra...

föstudagur, nóvember 04, 2005

"I speek English, Wall Street English!"


Það rignir mikið í dag. Í gær var hins vegar fullkomið veður, hvorki rigning, vindur né rugl. Virðist skiptast á hérna skin og skúrir.

Ég horfði á MTV verðlaunin í gær. Hélt með Coldplay auðvitað. Ji hvað þeir eru geggjaðir. Ýkt ógisslega geggjó. Svo var Madonna að sanna það að hún gæti sko alveg verið í bara netasokkabuxum og hrist rassinn eins og hún gerði fyrir 20 árum þó svo hún sé orðin 45 ára, eða um það. Þetta er ekki alveg töff. Hún er samt rosalega fit konan. Hún er í power yoga, eins og ég :) Ég fer í minn fyrsta tíma eftir viku. Þetta er svo lítill salur þarna í Paris Relax, maður verður að panta tíma fyrir fram.

Í gær tók ég strætó í vitlausa átt og fór í afar skemmtilega útsýnisferð. Ætla að gera þetta aftur. Metró er eitthvað svo boring, finnst strætó miklu mannlegri og maður þarf ekki að stara á Wall Street Institute auglýsinguna og vera með "I speek English, Wall Street English!" á heilanum allan daginn eftir á.

Annars er einhver jólaseiðingur farinn að gera vart við sig hér í París. Í ED er hægt að kaupa alls kyns jólanammi á túkall (öruglega frá því í hittifyrra) og það er komið jóladót í Monoprix og svo eru jólin líka komin í IKEA. Ég er að fara þangað að kaupa svefnbedda í nætu viku eða þarnæstu viku. Hlakka ýkt til! Ýkt ógisslega. Kannski fæ ég mér franskar-sænskar kjötbollur, kjöttbuller í sósu.

Í dag er það hins vegar 4 klst. af TD hjá Mme EVESQUE, þar sem hún drepur, kálar, myrðir, ljóðrænuna í Baudelaire með strúktúralískri greiningu skv. franskri hefð. Hún veit ekki að hún drepur hluta af sálum nemenda sinna í leiðinni með þessu muldri og tauti án þess að taka pásu nema kannski einu sinni í 4 mínútur...

En eftir það heldur lífið áfram. Ætla sjá mynd um David PERLOV í Pompidou.

En nú er það ritgerð!!!

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

Toussaints

Þetta er skemmtileg síða, uppfært reglulega :

MTV Load Cartoons>

En í dag er Allraheilagramessa, Toussaintes, og það er frí hjá öllum. Það er sól úti. Ég er að læra, amk var ég að því áðan og er að fara að gera það aftur á eftir. Í dag fara allir í krijugarðana og kveikja á kertum fyrir þá látnu. Mjög fallegt.

Ég horfði á Rosemary´s baby í gær, döbbaða á frönsku bien súr. Hún var góð. Skilur samt eftir sig eitthvert óbragð, eins og hryllingsmyndir eiga að gera.

Í dag er það ritgerð, encore, skokk við Eiffelturninn og eitthvað grænmetistengt í matinn.